Ég hef alla tíð verið mjög viðkvæm og tilfinninganæm. Í gegnum tíðina hefur þetta flokkast til „galla“ frekar en kosts og ég man oft eftir sjálfri mér í æsku í skömm og niðurrifi yfir þessari bölvun og þessum „aumingjaskap“.
Þegar ég fór í þerapíuna lærðu að elska þig hjá Ósk komst ég fyrst að því hver þessi eiginleiki væri og hvað hann þýddi, sem gjörbreytti öllu mínu lífi og allri minni upplifun á sjálfri mér sem barn og í dag.
Sem ofurviðkvæmt barn var ég óörugg, kvíðin, grátgjörn og með miklar tilfinningasveiflur. Ég skar mig oft úr hópnum, var hrædd við ótrúlegustu hluti og upplifði aðstæður á oft allt annan hátt en aðrir í kringum mig. Ég átti erfitt með að sofna, gat ekki verið ein, ég fékk líkamleg einkenni, varð veik eða fékk útbrot í andlit þegar ég var að fara á grímuböll eða stærri skemmtanir. Ég upplifði oft að ég væri öðruvísi, að ég ætti að vera harðari af mér og hemja tilfinningar mínar. Þess má geta að ég fékk alltaf mikla hlýju og skilning frá foreldrum mínum, sem sýndu „ástandi“ mínu mikla þolinmæði þrátt fyrir að skilja ekki frekar en aðrir hvers vegna ég væri svona.
Samfélagið og gamlar uppeldishefðir hafa í gegnum tíðina viljað „herða“ börn sem eru viðkvæm og tilfinninganæm, en ofurviðkvæm börn er ekki hægt að herða – það eina sem gerist þá er að þau draga sig meira til hlés, fela tilfinningar sínar og líðan auk þess að þróa með sér ADD (athyglisbrestur án ofvirkni) til að loka sig betur af.
Lífið hjá ofurviðkvæmu barni og einnig á fullorðinsárum getur verið tregafullt og erfitt, tilfinningarnar eru djúpar og fara langt niður en einnig jafnhátt upp. Í dag tárast ég reglulega og græt jafnvel -bæði af gleði og sorg, eða bara ef ég hlusta á tilfinningaþrungið lag. Ég fæ reglulega gæsahúðir og líkamleg einkenni vegna upplifanna eða aðstæðna, bæði jákvætt og neikvætt. Ég dreg orku umhverfis míns í mig og ef ég er í neikvæðu andrúmslofti þar sem t.d. er verið að rífast eða þar sem ég upplifi einhversskonar kúgun eða óréttlæti þá verður mér flögurt, upplifi lystarleysi og kasta jafnvel upp.
Það er hægt að byrgja sig betur og læra á sjálfan sig þannig að maður hafi meiri stjórn á eigin upplifun á umhverfinu, og ég er enn að æfa mig svo ég geti stjórnað þessu betur. En þrátt fyrir að ofuviðkvæmni geti verið bölvun getur hún einnig verið mikil blessun og því er ég í dag mjög þakklát fyrir hana –ég er þakklát fyrir að upplifa sæluvíma hríslast um mig og tárast þegar dóttir mín segist elska mig, ég er þakklát fyrir að tárast og gráta þegar ég fer í jarðaför (þótt ég hafi kannski lítið þekkt aðilann) þar sem ég skynja allar djúpu, erfiðu en kærleiksríku tilfinningar allt í kringum mig. Ég er þakklát fyrir öll skiptin sem ég hef stigið út fyrir „normið“ og haldið í höndina á annarri manneskju, oft ókunnugri, þegar ég fann óumflýjanlega fyrir vanlíðan hennar og sá að enginn annar var til staðar. Ég er þakklát fyrir sæluna sem ég upplifi þegar ég finn ilminn af birkirunna í byrjun dags eftir rigningasama sumarnótt. Og síðast en ekki síst er ég þakklát fyrir samkenndina sem ofurviðkvæmni mín gefur mér og hvernig ég get nýtt
mér hana í öllum mínum samskiptum, starfi t.d. þegar ég vann á elliheimilum og nú í dag sem þerapisti.
Ofurviðkvæmni mun alltaf vera hluti af mér og mun halda áfram að færa mér dýpri tilfinningar en margir upplifa – bæði upp og niður, án hennar væri ég ekki sú sem ég er og því gæti ég ekki án hennar verið.
コメント